Kaupstaðarferðin

Ég greip í gær ofan í Málsvörn og minningar Matthíasar Johannessen (Vaka-Helgafell 2004) og lenti á þætti sem hann kallar Kaupstaðarferð (bls. 305). Þar víkur Matthías að frægu samtali sínu við Stein Steinarr sem birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 1957. Oft hefur verið vitnað til lokaorða Steins í þessu viðtali:

Ég er uppalinn í sveit, eins og þú kannski veist, og þegar ég var lítill drengur, var ég stundum sendur í kaupstaðinn, eins og það var kallað. Í raun og veru finnst mér ég enn vera í einhverri slíkri kaupstaðarferð, langri og yfirnáttúrlegri kaupstaðarferð, en ég hef gleymt því hver sendi mig, og einnig því, hvað ég átti að kaupa.

Matthías bendir á að sama ár er haft eftir Garðari Hólm í Brekkukotsannál:

Hún móðir mín sendi mig einu sinni út að kaupa pipar og ég er ekki kominn heim enn.

Matthías leggur skemmtilega út af þessum orðum. Hann spyr hvað það hafi verið sem sendi þessa menn, Garðar og Stein, í kaupstað. Niðurstaðan, sem hann rökstyður vel, er að það hafi verið arfleifðin, það sem gerði okkur að þjóð. Þar sé sem sagt að finna hinn raunverulega tilgang ferðarinnar. Án arfleifðarinnar séum við erindislaus.

Líkinguna um barnið í kaupstaðarferðinni er annars einnig að finna í frægu ljóði eftir sænska skáldið Nils Ferlin (1898-1961):

DU HAR TAPPAT DITT ORD
Du har tappat ditt ord och din papperslapp,
du barfotabarn i livet.
Så sitter du åter på handlarns trapp
och gråter så övergivet.

Vad var det för ord - var det långt eller kort,
var det väl eller illa skrivet?
Tänk efter nu - förrn vi föser dig bort,
du barfotabarn i livet.

Magnús Ágeirsson þýddi ljóð Ferlins, kallaði það MANNSBARN og birti í Meðan sprengjurnar falla (1944):

Þú misstir á leiðinni miðann þinn,
þú mannsbarn, sem einhver sendi.
Á kaupmannsins tröppum með tárvota kinn
þú titrar með skilding í hendi.

Var hann stór eða lítill, lappi sá,
- með ljótri eða fallegri hendi?
Vertu fljótur að muna - eða mjakastu frá,
þú mannsbarn, sem einhver sendi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

innlitskvitt

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 05:00

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Kanski er verið að vísa til þess að þegar fólk kynnist nýjum viðhorfum og nýju umhverfi verður það oft svo hugfangið að það gleymir rótunum.  Það er í raun sama hvaða uppeldi og stuðning þú hefur að heiman frá þegar á reynir þá stendur manneskjan alltaf ein uppi með sínar ákvarðanir og þar sem einn sér blindgötur sér annar tækifæri.  Það sem sameinar þjóðina er sameiginlegur kærleikur fólksins til landsins og samfélagsins sem það byggir.

Ester Sveinbjarnardóttir, 15.2.2007 kl. 12:10

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Það er samt allltaf eitthvað sem heldur í ræturnar. Amma þegar hún sagði um leið og hún breiddi yfir mann í gamla rúminu ´sinu.sjáðu túllið út um svenebbeggisgluggan? Hefur alltaf haldið að mér náttúru landsins okkar.

Verandi búin að vera lengi í burtu þá togar landið fast.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 15.2.2007 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband