Pétursþing

Ég sat Pétursþing Gunnarssonar úti í Odda á uppstigningardag og varð uppnuminn. Fyrirlesararnir voru allir góðir, hver um sig velti upp nýjum flötum á ferli og höfundarverki Péturs af ást og hrifningu. Á þessu þingi skapaðist strax ákaflega sterkur og samhentur þingmeirihluti. Meðan leikar stóðu sem hæst bárust svo fregnir inn á fundinn utan úr bæ um að tólf ára ríkisstjórnarsamstarfi hefði verið slitið.

Þingið náði hápunkti sínum í máli þriggja síðustu ræðumanna: Halldór Guðmundsson gerðist sætavísa á fremsta bekk íslenskra skálda. Hann dró upp vasaljósið og vísaði Pétri fumlaust til sætis. Ekki milli Laxness og Þórbergs eins og Andri Haraldsson lét sig dreyma um heldur undir Þórbergi. Takið vel eftir að Þórbergur situr ekki ofan á Pétri, heldur Pétur undir honum. Af slíku samsæti er mikils að vænta.

Sigurður Pálsson kom síðan og lagðist í bernskuminningar þeirra skáldbræðra frá París 68-69. Hann víkkaði og dýpkaði enn myndina af Pétri með því meðal annars að upplýsa grandalausan þingheim um skapofsa hans og ofbeldishneigð.

Loks sté Pétur sjálfur í pontu og sannaði eftirminnilega að hann er meistari meistaranna í að einfalda flókna hluti án þess að banalísera þá. Jafnframt helsti sérfræðingur okkar í því að flækja ekki einfalda hluti, sem ekki er síður mikilvægt.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Reykurinn af þessum réttum barst mér gegnum útvarpið í bílnum. Örskotsstund gafst mér að hlýða á kveðjuorð Péturs og líkaði meira en vel. Ég er bestur í að missa af öllu sem gæti bætt í mér sálina og það er slys því þar er mikið verkefni.

Ég verð að halda áfram að gefa öfundinni að éta.

Árni Gunnarsson, 19.5.2007 kl. 20:25

2 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Sammála Árna hinum vitra. Ég missi af allt of miklu fyrir innantóman boðskap sjónvarpsins. Aftur á móti vildi ég gjarnan svara "Þjóðkirkjuræknigrein" þinni með þessum orðum:

Samkynhneigðir hnotukrossinn

hnjóta við,

ekki blessar ástarkossinn

Almættið! 

Rúna Guðfinnsdóttir, 19.5.2007 kl. 22:47

3 Smámynd: Kristján Björnsson

Ekki fatast Pétri flugið frekar en fyrrum. Mikið öfunda ég ykkur að hafa ratað til sæta ykkar á slíku þingi.

Kristján Björnsson, 22.5.2007 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband