Þjóðkirkjurækni

Ansi á ég bágt með að skilja hvaða endemis vesin þetta er alltaf með þjóðkirkjuna og samkynhneigða. Erfiðast á ég með að átta mig á því af hverju samkynhneigðir Íslendingar eru svona miklu trúhneigðari og kirkjuræknari en við hin. Jafnframt sýnist mér að samkyntrúhneigðir séu líka miklu fleiri hér en annarsstaðar ef marka má þungann í umræðunni. Hvers vegna skyldi samþætting þessara tveggja hneigða vera svo algeng hérlendis? Er þetta kannski snar þáttur í Íslendingseðlinu? Þetta gæti verið rannsóknarefni fyrir einhvern metnaðarfullan Íslendingseðlisfræðing.

Við sem hneigjumst ekki til trúar sjáum ekki nauðsyn þess að kirkjan eigi yfirleitt að koma að hjúskaparsáttmálum. Veraldleg yfirvöld geta annast slíka gjörninga af stakri prýði og þeir ættu alfarið að vera á þeirra könnu fyrst kirkjunnar mönnum þykir þetta allt svona vandmeðfarið. Þar með yrði sá kaleikur frá kirkjunni tekinn og þar gæti fólk farið að ræða eitthvað sem því finnst skemmtilegra. Jafnframt hyrfi öll mismunun: Það giftir sig ósköp einfaldlega enginn hjá presti eða í kirkju og sú tilhögun gildir jafnt um alla, hvert svo sem þeir hneigjast.

Að auki spyr ég: Hefur enginn tölfræðingur kannað og borið saman endingu borgaralegra hjónabanda og heilagra? Fróðlegt væri að fá að vita með vissu hvort tölur um slíkt liggja fyrir. Mér kæmi ekki á óvart þó endingin reynist æ minni eftir því sem utanverkið, tilstandið og heilagleikinn er meiri. En kannski hef ég rangt fyrir mér í því.

Sjálfur hef ég verið í borgaralegu hjónabandi með sömu gömlu góðu konunni í hálfan fjórða tug ára. Við höfum aldrei saknað þess neitt sérstaklega að guð skyldi ekki til kvaddur þegar okkar hjónaspil hófst. Það kom aldrei til greina. Jafnvel held ég að ef kirkjan hefði af einhverjum orsökum viljað meina okkur að eigast hefði okkur verið alveg sama og jafnvel þótt það dálítið sniðugt. Fógetinn dugði líka fullvel.

Og þar kom reyndar um síðir að við hrósuðum happi að hafa ekki blandað kirkjunni í málið því líkast til hefði hjónaband okkar þar með verið ógilt. Við komumst nefnilega að því að íslenska þjóðkirkjan tekur oft sáralítið mark á eigin athöfnum. Hér kemur sagan af því:

Við hjónin erum hvort tveggja skírð og fermd á vegum þjóðkirkjunnar og teljum að það hafi aldrei skaðað okkur neitt. Þess vegna fannst okkur eðlilegt að láta skíra alla syni okkar fimm jafnóðum. Þeir hafa síðan sjálfir mátt ráða því hvort þeir vildu staðfesta skírnarsáttmálann með fermingu þegar þar að kæmi.

Sumarið 1991 var þar komið sögu að fjóra drengi höfðum við látið skíra og þrír höfðu þegar fermst. Sá fimmti og yngsti var svo skírður þá um sumarið. Við fengum góðan prest til að koma heim til okkar, athöfnin var hátíðleg og falleg og allir glaðir. Að henni lokinni fylltum við út eyðublað þar sem meðal annars var spurt um trúfélagsaðild foreldranna og að sjálfsögðu sögðumst við tilheyra þjóðkirkjunni, annaðhvort væri nú, við höfðum bæði verið tekin inn í þann söfnuð, ég ómálga en konan mín málga. Bæði höfðum við síðan látið ferma okkur í fyllingu tímans.

Nokkrum vikum eftir þessa skírn er hins vegar hringt í okkur frá Hagstofunni og spurt með nokkurri hneykslan hvers vegna konan mín segðist vera í þjóðkirkjunni því hún sé það reyndar alls ekki. Þetta var sagt skipta meginmáli, því trúfélagsaðild barna ráðist þar á bæ af trúfélagsaðild móður og engu öðru.

Okkur þóttu þetta í meira lagi óvænt og einkennileg tíðindi. Og eftir nokkra rannsókn kom eftirfarandi í ljós: Móðir konu minnar hefur aldrei í þjóðkirkjunni verið, eða nokkru öðru trúfélagi. Þetta leiddi síðan til þess skv. verklagi Hagstofunnar að ekkert barna hennar taldist til þjóðkirkjunnar þó öll væru þau skírð og fermd. Og áfram hélt þetta að erfast í kvenlegg samkvæmt sömu reglu: Öll dætrabörn tengdamóður minnar töldust trúfélagslaus en sonabörnin sluppu hinsvegar inn af því mágar mínir höfðu verið nógu klókir til að eignast þau með þjóðkirkjukonum. Jafnframt kom í ljós að óskírð og ófermd börn töldust hiklaust til þjóðkirkjunnar ef mæður þeirra gerðu það. Við það virtist kirkjan ekki hafa neitt að athuga. Þar með sátum við uppi með það í okkar fjölskyldu að ég var sá eini sem tilheyrði þjóðkirkjunni. Konan og drengirnir voru aftur á móti utangarðs.

Ég tók mig nú til og skrifaði biskupi, herra Ólafi Skúlasyni, bréf og spurði hvernig í ósköpunum þetta mætti vera. Hvernig stæði á því að kirkjan léti þetta líðast? Tæki hún ekkert mark á sínum eigin athöfnum og sakramentum? Jafnframt spurði ég hvort það hlyti ekki að teljast skýlaust brot á jafnréttislögum að trúfélagsaðild föðurins skipti í þessu tilliti engu máli. Biskup svaraði mér vinsamlega í miklum mæðutón. Eins og nærri mætti nú geta hefði þessi tilhögun lengi legið þungt á kirkjunnar mönnum en engu fengist um haggað. Fyrir okkur hjónin væri ekkert til ráða annað en að fara niður á Hagstofu og fylla út eyðublað sem héti tilkynning um breytingu á trúfélagi. Ég lét mér ekki duga þetta svar en skrifaði annað bréf og spurði sem svo: Hvernig á ég að geta fyllt út slíkt eyðublað án þess að fá að vita ÚR hvað trúfélagi fólkið er að ganga? Fyrst söfnuðurinn sem þau voru tekinn inn í og staðfestu síðan vist sína í er ekki þjóðkirkjan, hver er hann þá? Við þessu fékkst ekkert svar.

Eftir þetta gerðist ekkert lengi vel. Kirkjunnar menn höfðu ekki áhuga á þessu og það hvarflaði ekki að okkur að fylla út hið snautlega eyðublað. Okkur fannst þetta hjákátlegt, en svo sem ekkert stórmál. Ef guð væri til hlyti hann að vera hafinn yfir slíkt skrifræðisrugl og væri áreiðanlega sama hver væri í hvaða söfnuði eða ekki. En svo var það skömmu eftir að sr. Hjálmar Jónsson varð dómkirkjuprestur að ég hitti hann í hléi á kvikmyndasýningu í Háskólabíói. Ég tók í spaðann á honum og óskaði honum til hamingju með nýja starfið, kvaðst vera sóknarbarn hans, en mér þætti hinsvegar leitt að þurfa að segja honum að þjóðkirkjan hans hefði hafnað konu minni og sonum þó hún virtist af einhverjum ástæðum vilja hafa mig innanborðs. Hjálmar gekk svo snarlega í málið að mér er stórlega til efs að hann hafi horft á myndina eftir hlé. Hann skrifaði Hagstofunni í krafti síns embættis og sagði að sér væri kunnugt um að viðkomandi sóknarbörn teldust öll til þjóðkirkjunnar, enda öll skírð og að auki fermd þau sem aldur hefðu til.

Þar með komust týndu sauðirnir heim. Eða það held ég. Við höfum enn ekki haft fyrir því að athuga það hjá Hagstofunni. Einnig skilst mér að skírnareyðublaðinu hafi í framhaldi af þessu verið breytt þannig að nú er trúfélagsaðild barns tilgreind þar og barnið skráð hjá Hagstofunni samkvæmt því, alveg burtséð frá því hvaða söfnuði móðirin tilheyrir.

Ekki veit ég hvort enn tíðkast að óskírð og ófermd börn séu skráð í þjóðkirkjuna ef móðirin er þar, en hitt er ég alveg viss um í ljósi okkar reynslu að fjöldi fólks sem heldur sig vera í þjóðkirkjunni (skírt og fermt) er það ekki. Eins er viðbúið að margir sem halda sig skráða utan kirkjunnar (óskírðir og ófermdir) séu enn taldir til hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Viðar Eggertsson

Sæll Þórarinn,

ég er sammála þér að hjónavígslur, bæði samkynhneigðra og gagnkynhneigðra, eigi að vera framkvæmdar af veraldlegu valdi, en ekki kirkjulegu.

Síðan mega allskyns félög blessa hjónaböndin, eftir eigin geðþótta, hvort sem þau kalla sig trúfélög, kirkjur eða eitthvað annað. Ekki væri ég á móti því að Félag smábátaeigenda myndu blessa hjónabandið mitt, ef það væri nú til staðar.

En mikilvægast er að skilja að kirkju og ríki. Það á engin þjóðkirkja að vera í landi þar sem trúfrelsi ríkir.

Og þakka þér fyrir bráðskemmtilega og lýsandi sögu af kirkjunni.

Viðar Eggertsson, 27.4.2007 kl. 17:04

2 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Það virðist ekki vera skilningur hjá starfsmönnum ríkisfyrirtækisins Þjóðkirkjan, á því hjá hverjum þeir vinna í raun og hver greiðir launin þeirra.

Þeir eiga að fara að lögum og vilja Alþingis eins og aðrir ríkisstarfsmenn.

Ef þeir vilja það ekki, er þeim frjálst að stofna trúfélag og fara út í eigin rekstur.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 27.4.2007 kl. 19:58

3 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Kæri vinur!

Alltaf hefur mér nú verið hlýtt til þjóðkirkjunnar, enda kominn af prestum og biskupum eins og þú. En aldrei hef ég reyndar lagt ofurtraust á hana, Hákon sálugi Guðmundsson gifti okkur reyndar hjónin, og erum þó í sælli hjónavist og höfum verið í hálfan fjórða áratug. Þetta kemur trú ekkert við. Móðir mín sálug var reyndar hvorki skírð né fermd. Og konan mín sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir nokkrum áratugum þótt ég hefði ekki beðið um það. Í stuttu máli: Trú er einkamál og hjónavígslur eru skránaingaratriði hjá hinu opinbera. Mér dettur í hug að þessi ásókn (sumra) samkynhneigðra í kirkjulega blessun, sé sprottin af lúterskri sektarkennd.

Sigurður G. Tómasson, 27.4.2007 kl. 21:26

4 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Takk fyrir pistilinn!!  Heyrðu, ég ætla að biðja þig um bloggvinaaðild þá fæ ég þig upp á borðið hjá mér þegar þú skrifar eitthvað (af viti eða ekki)!  kv.  B

Baldur Kristjánsson, 30.4.2007 kl. 17:49

5 Smámynd: Kristján Björnsson

Takk fyrir tragískan pistil þinn Þóarinn. Alltaf gaman að lesa eftir þig skrifin. Þú ert samt að hengja bakara fyrir smið varðandi trúfélagsaðildina. Þar hef ég oft lent í ströngu með fólki að hjálpa því að fá leiðréttingu mála sinna hjá Hagstofunni. Þar eru margar reglur skrítnar. Börn fylgja trúfélagi móður, punktur. Inflytjendur eru skráðir utan trúfélaga, punktur. Allir kaþólikkarnir á Jökuldalsheiðinni eru utan trúfélaga. En Þjóðkirkjan sem slík skrári ekki í trúfélag. Það gerir fólk sjálft þar sem það er allra manna sjálfsagður réttur í trúfrelsinu.

Varðandi þjóðkirkjurækni samkynhneigðra er ég jafn mikið mát og þú. Ég átta mig alls ekki á því hvers vegna þessi umræða er svona yfirgengilega mikil að vöxtum, að ekki sé einu sinni hægt að fara í alþingiskosningar án þess að taka tillit til þess hvaða vígslumenn eiga að staðfesta samvist aðrir en blessaðir sýslumennirnir.

Enginn gerir kröfu á aðrar kirkjudeildir eða trúfélög í landinu í sama mæli og þjóðkirkjuna. Það bendir til að þessi þjóð gerir ekki mikinn greinamun á sjálfri sér og þjóðkirkjunni í reynd. Merkilegt innlegg í umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju sem verður líklega seint aðskilnaður þjóðar og kirkju.

Bestu kveðjur, Kristján Björnsson

Kristján Björnsson, 30.4.2007 kl. 22:10

6 Smámynd: Þórarinn Eldjárn

Sæll vertu Kristján. Ég hengdi nú hvorki bakara né smið, enda alfarið á móti dauðarefsingum. Það sem mér þótti ámælisvert var að kirkjunni var áratugum saman fullkunnugt um þennan fáránleika Hagstofunnar án þess að aðhafast neitt í málinu. Með því fannst mér hún lítilsvirða dálítið sínar eigin athafnir.

Bestu kveðjur, Þórarinn.

Þórarinn Eldjárn, 1.5.2007 kl. 14:33

7 Smámynd: Kjartan Valdemarsson

Við stóru orðin stend ég síst

stefni beint í glötun

héðan af þá verð ég víst

varla kjaftajötunn.

Varðandi of "st"uðlun.

Kveðja Kjartan V.

Kjartan Valdemarsson, 4.5.2007 kl. 01:49

8 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Ef það er eitthvað ríkisfyrirtæki sem á að einkavæða er það þjóðkirkja Íslands.  Af hverju er kirkjan ekki sett í einkavæðingar ferlið eins og svo mörg önnur ríkis-fyrirtæki?

Hlynur Jón Michelsen, 6.5.2007 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband