Minnihlutaofbeldi

Það er beinlínis ömurlegt að horfa upp á skrípalæti minnihlutans á Alþingi vegna frumvarpsins um Ríkisútvarpið ohf þar sem málþófi er beitt enn eina ferðina til að reyna að drepa málinu á dreif, virðingu þingsins til stórskaða. Eitt er svo sem að bera ekki gæfu til að standa að lífsnauðsynlegum breytingum á rekstrarformi þessarar mikilvægu menningarstofnunar en annað er að láta sér sæma að beita ofbeldi til að koma í veg fyrir að meirihluti þingsins fái að ráða. Þó ekki væri öðru en því að gengið verði sem fyrst til atkvæða um málið eftir alla þá umfjöllun sem það hefur fengið. Það er í hæsta máta ólýðræðislegt.

Á undanförnum árum hefur borið nokkuð á sérkennilegri lýðræðisumræðu sem gengur út á það að því meiru sem hinn allra minnsti minnihluti fái að ráða, þeim mun meira sé lýðræðið þar með orðið. Og svo á hinn bóginn: Því stærri meirihluti sem er fyrir einhverju tilteknu máli, þeim mun minna lýðræði. Samkvæmt þessum kokkabókum hlýtur td. stofnun lýðveldisins 1944 að hafa verið hrikalega ólýðræðisleg. Þetta er kallað meirihlutaofbeldi og þykir skelfilega ljótt. Ég get svo sem alveg tekið undir það að allt ofbeldi er slæmt. Af tvennu illu kýs ég þó frekar meirihlutaofbeldi en minnihlutaofbeldi.

Rekstrarformi Ríkisútvarpsins VERÐUR að breyta. Það er meðal annars forsendan fyrir nýrri stórsókn í innlendri dagskrárgerð sem koma mun íslenskri menningu og tungu mjög til góða ef rétt verður á haldið. Ég skora á þing og menntamálaráðherra að gefast ekki upp fyrir ofbeldi og klisjugangi afturhaldsins og leiða þetta mikilvæga mál óhikað til lykta þó það kosti sólarhringstarnir í margar vikur.

Síendurtekið efni er gamla klisjan um meint yfirráð Sjálfstæðisflokksins yfir Ríkisútvarpinu og öllu sem þar heyrist og sést og fer fram. En í hverju felast þau yfirráð? Hvað er útvarp annað en fólkið sem starfar þar og við heyrum í dags daglega? Ég minnist spjallþáttar sem ég hlustaði á fyrir fáeinum misserum. Þar voru nokkrir eindregnir andstæðingar ríkisstjórnarinnar að venju samankomnir fyrir hádegi á laugardegi til að ræða landsins gagn og nauðsynjar en þó einkum ógagn og ónauðsynjar. Talið barst að Ríkisútvarpinu og einn kjaftajötnanna nefnir að nú sé svo komið að það þurfi flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum til að fá þar inni. Allir viðstaddir flissuðu samþykkjandi að þessum almæltu sannindum, þar hittirðu nú aldeilis naglann á höfuðið...

En ég, saklaus hlustandinn heima, sagði við sjálfan mig: Ja, ljótt er að heyra, en er þetta virkilega svona? Ég hlustaði og hlusta enn mikið á Rás eitt og fór að hugsa: Í hverjum heyrist í útvarpinu? Hverjir ERU Rás eitt? Á þeim tíma reyndust það eftir stutta minnisleit einkum vera eftirtaldir, allt saman frábærir, lifandi og áhugasamir útvarpsmenn: Ævar Kjartansson, Arthúr Björgvin Bollason, Jórunn Sigurðardóttir, Þröstur Haraldsson, Anna Kristín Jónsdóttir, Leifur Hauksson, Eiríkur Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Jón Ásgeir Sigurðsson, Gunnar Gunnarsson, Friðrik Páll Jónsson, Steinunn Harðardóttir, Una Margrét Jónsdóttir...

Ég man að mér þóttu það óvænt og váleg tíðindi að allt þetta ágæta fólk skyldi vera gengið í Sjálfstæðisflokkinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband