Iceland spar

Fróðleg var úttekt Björns Þórs Vilhjálmssonar í Lesbókinni um helgina á nýjustu skáldsögu bandaríska hulduhöfundarins Tómasar Pynchons, Against the Day. Ekki síst fyrir þá sök að Ísland, nánar tiltekið Ísafjörður, er að hluta til sögusvið bókarinnar. Það finnst okkur alltaf svo gaman. Ísland er nefnt... segjum við og tökum andköf af hrifningu og ánægju. Ekki síst við Vestfirðingar að þessu sinni. Sem betur fer er enn talsvert grunnt á nesjamennskunni í okkur. Það yrði mjög leitt ef henni verður útrýmt. Þetta hlýtur að vera gríðarleg landkynning. Enginn hefur þó orðið var við Pynchon á vappi um bryggjur og götur á Ísafirði, en hví skyldi hann ekki hafa lagt leið sína þangað fyrst sjálfum Mick Jagger þótti taka því? Og Ísfirðingum er víst vorkunn þó þeir þekktu ekki manninn.

Einkennilegt var svo aftur á móti að sjá að hvorki Björn Þór né nokkur af ritstýrendum og yfirlesurum Lesbókarinnar virðast hafa hugmynd um að efnið dularfulla sem svo mjög ber á góma í sögunni, Iceland spar, litlaus tegund af kristölluðu kalsíti hefur hingað til verið betur þekkt hérlendis undir nafninu SILFURBERG.

Er almenn menntun nokkuð á undanhaldi í landinu, eða flokkast vitneskja af þessu tagi undir fánýtan fróðleik?

Leó Kristjánsson eðlisfræðingur hefur manna best kynnt sér silfurbergsvinnslu á Íslandi á öldum áður og rannsakað þýðingu hennar í vísindasögunni, svo sem auðveldlega má kynna sér á Netinu.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband