Þú stóðst á tindi Teide hám

Á þessu méli í bloggferli mínum er víst ekki úr vegi að rifja upp kveðlinga sem ég birti eitt sinn meðan ég var laumubloggari á theld.stuff.is, sennilega þá þegar farinn að gera mér grein fyrir að ég yrði seint svokallaður ofurbloggari:

Eiginlega ekki vel
ætlar mér að lukkast blogg
á mér þó ég ýfi stél
eða jafnvel brýni gogg.

Við stóru orðin stend ég síst
stefni beint í glötun
héðan af þá verð ég víst
varla kjaftajötunn.

Annars kom það sér vel að vera ekki með mikinn kjaftagang þegar ég gekk á eldfjallið Teide (3718 m.) á Tenerife á páskadag ásamt vöskum tólf manna hópi. Tindurinn kallast hæsta fjall á Spáni en meira réttnefni væri þó líklega hæsta fjall Spánverja. Þetta fastlandshæðarmet mitt hafði ég hugsað að setja mér til andríkis en í staðinn varð ég andstuttur og ekki í kjaftastuði meðan á því stóð. Allt gekk þó frábærlega vel. Það var magnað að sitja þarna uppi í fjúki og frosti og brennisteinsfnyk og horfa of heima alla. Upprisan var erfið en sýnu meira púl varð þó niðurgangan. Spölurinn hafði af einhverjum ástæðum lengst óheyrilega frá því um morguninn að lagt var upp í myrkri. Það er alveg á skjön við reynslu mína hingað til sem segir að bakaleiðin sé ævinlega styttri. Allt hafðist þó að lokum og nokkrum klukkustundum síðar vorum við komin aftur alla leið niður á Ameríkuströndina. Það var skrýtin öfgatilfinning að vakna svo á mánudagsmorguninn eftir 14 klukkustunda öngvit og haltra beint niður í heitan sandinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir skemmtilegan pistil og þú hlýtur að skilgreinast sem ofurbloggari, hér með.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.4.2007 kl. 12:28

2 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Öldungis ágætt. En er ekki kominn tími á að ná ritfæru íslensku orði, sem og þjálu, yfir þetta afstyrmisorð sem blogg er?  Ég hef reynt mikið en mér eru bara ekki gefnar gáfurnar til þess lags verka þannig að nú veltist ábyrgðin á því yfir á aðra.

Ragnar Bjarnason, 17.4.2007 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband