24.3.2007 | 21:49
Heimsmeistarakeppnin í brús í Svarfaðardal
Heimsmeistarakeppnin í brús fór fram að Rimum í Svarfaðardal í gærkvöldi. Ég tók þátt í þessari keppni eins og mörg undangengin ár. Spilafélagi minn að þessu sinni var dr. Árni Hjartarson jarðfræðingur, frændi minn frá Tjörn.
Við tókum daginn snemma og hófum æfingar klukkan 16 ásamt Hjörleifi og Írisi suður í Laugasteini, næsta bæ við Gullbringu. (Hvort tveggja hjáleigur frá Tjörn).
Spilið hófst kl 20, spilaðir voru 9 kambar, stutt hlé eftir 5. kamb.
Keppendur voru um 70 og úrslit sem hér segir: Heimsmeistarar urðu Eiríkur og Sæmundur með 46 stig, í öðru sæti Kristján og Kristjana á Tjörn með 45 stig, í þriðja sæti Þór og Halli einhversstaðar litlu neðar. Kamburinn helst því í dalnum, lsg.
Við Árni fengum 39 stig sem verður að teljast mjög viðunandi. Við unnum 4 kamba af 9, fengum aldrei á okkur klórningu en klóruðum einu sinni með fullum árangri. Fengum 6 stig fyrir einn kambinn en þá hafði okkur tekist að voga rúntinn tvisvar, að ódrepnu. Vorum ekki janaðir nema einu sinni, en tókst því miður ekki sjálfum að jana neina mótherja.
Eftir þessa keppni finnst okkur enn sem fyrr gagnrýni vert að drepin vogun skuli gefa fleiri stig á kambinn en staðin. Þeas, staðin vogun rúntinn gefur 2 stig en andstæðingurinn fær 3 fyrir að drepa hana. Staðin vogun undir næsta mann gefur aðeins 1 stig á kambinn en andstæðingar fá 2 fyrir að drepa hana. Þetta hvetur til varfærni og öryggisspilamennsku. Miðjumoðs. Meðalmennsku. Eins og reglurnar eru núna er því ekki hægt að segja vogun vinnur / vogun tapar, heldur vogun rétt aðeins vinnur / vogun skít-tapar.
Við frændur hyggjumst taka málið upp á næsta aðalfundi Brússambandsins.
Við kölluðum liðið okkar "Janus". Næsta ár á það að heita "Janus Kamban"
Á heimasíðu Dalvíkurbyggðar má lesa sér til um leyndardóma brússins.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Þetta er áhugavert. Nú fer maður og leggst yfir brús til að ná áttum.
Ragnar Bjarnason, 26.3.2007 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.