Listaverk sem hvarf

Fyrir nokkrum árum var ráðist í miklar endurbætur umhverfis Alþingishúsið. Gatan og stéttin voru tekin í gegn og löguð og flikkað mjög upp á Austurvöll í leiðinni. Til að kóróna herlegheitin var svo loks komið fyrir fjórum risavöxnum boltum úr steini og þeir njörvaðir tryggilega við stéttina framan við húsið. Ég leit alltaf svo á (án þess nokkur beinlínis segði mér það) að þessi innsetning, þetta umhverfislistaverk, væri hugsað sem einskonar minnisvarði um fjórflokkakerfið. Skilaboðin voru augljós: Hér eru þessir fjórir boltar og hér verða þeir um aldur og ævi. Ekkert fær þeim haggað. Vei þeim sem reynir að sparka einum þeirra burt, það gerist ekkert annað en það að boltamaðurinn fótbrotnar.

En svo allt í einu einn góðan veðurdag voru þeir horfnir. Næstum jafnsnögglega og SÍS eða Sovétríkin. Ég sá aldrei neina umfjöllun um þetta brotthvarf og efa stórlega að þeim hafi verið stolið

Ef hvarfið dularfulla hefur verið liður í innsetningunni, táknar það þá að einhverntíma geti komið að því, að mati listamannsins, að hið fjórhjóladrifna kerfi riðlist?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Að sönnu áhugaverð pæling, hvernig svo velvigtandi steinboltar geta bara gufað upp. Máske kom í ljós að fjórir steinhnettir hafa einhverja merkingu sem mönnum var hulin fyrirfram en lærðu svo eftirá svo ekki var annað í stöðunni en að láta þá hverfa. Nefni í því sambandi svipað mál með hinn rammheiðna kross - jafnarma inni í hring -  sem lagður hafði verið með hellugrjóti í götuna milli Alþingis og Dómkirkjunnar. Þegar menn áttuðu sig á heiðnum uppruna táknsins var ekki annað að gera en að flysja hina haganlegu lögn upp og setja eitthvað í staðinn sem ekki stuðaði kirkjumenn. Hvað sem því líður - ráðgátan um steinhnettina verður að leysast!

Jón Agnar Ólason, 2.2.2007 kl. 10:42

2 Smámynd: Jóhann Ágúst Hansen

Það væri auðvitað húmor ef steinboltarnir myndu skyndilega birtast fyrir framan höfuðstöðvar bankanna fjóra; Glitni, Kaupþing, Landsbankann og Straum Burðarás. Hafa þeir ekki tekið til sín valdið sem fjórflokkarnir deildu áður?

Jóhann Ágúst Hansen, 2.2.2007 kl. 12:33

3 identicon

Ef undirritaður man rétt tók hann þessa bolta í ölæði fyrir allnokkru síðan. Lifi byltingin!

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 16:31

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Þar hvarf dulúðinn, líkt og maðurinn sem Halldór Laxnes skrifaði um sem missti glæpinn ;)

Ester Sveinbjarnardóttir, 14.2.2007 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband