Meistarar

Ég hef stundum verið að velta fyrir mér hinum óformlega meistaratitli sem festist við suma listamenn. Hvað skyldi þurfa til? Greinilega þurfa menn að skara fram úr öðrum. Þó virðist það ekki alveg nægjanlegt eða einhlítt.

Samkvæmt orðsifjabók Ásgeirs Blöndals er orðið ættað úr latínu, dregið af magis sem þýðir meir, sbr magnus (mikill). Ásgeir Blöndal skýrir merkinguna þannig: Kennari, lærdómsmaður; leiðtogi; maður með tiltekið háskólapróf; iðnaðarmaður með ákveðin réttindi; yfirmaður, húsbóndi; afburðamaður í einhverri grein eða íþrótt.

Skoðum hverjir hafa helst borið þennan titil óformlega, hafa fengið hann af vörum þjóðarinnar sem einskonar gælunafn. Frá fyrri tíð man ég í fljótu bragði aðeins eftir tveimur mönnum: Þeir eru meistari Kjarval og meistari Þórbergur. Óumdeildir afburðamenn í sínum greinum en eitthvað annað hlýtur líka að koma til amk minnist ég þess ekki að hafa nokkurntíma heyrt talað um meistara Kiljan eða meistara Laxness. Aldrei hefur heldur heyrst meistari Davíð, meistari Tómas, meistari Steinn, meistari Páll Ísólfsson, meistari Jón Leifs - svo nokkrir séu nefndir - þrátt fyrir augljósa snilld og mikla aðdáun manna á verkum þeirra fyrr og síðar.

Afburðamannsskýringin hlýtur samt að eiga helst við hér. Trúlega er þó kennaramerkingin líka fyrir hendi. En svo sem sjá má af dæmunum er ekki sjálfgefið að allir hinir allra bestu hljóti titilinn, afburðunum virðist einnig þurfa að fylgja viss sérstaða eða sérlund. Sérlund af því tagi sem laðar að sér lærisveina og -meyjar. Nokkur innvígsla og safnaðarkennt andrúmsloft er greinilega til staðar.

Meðal núlifandi listamanna held ég að aðeins tveir beri þennan sjálfsprottna titil. Það eru þeir meistari Guðbergur og meistari Megas.

Einar Már og Sjón eru oft kenndir við verðlaun sem þeir hafa hlotið og kallaðir Norðurlandameistarar í bókmenntum en meistari Einar Már og meistari Sjón eru þeir samt ekki kallaðir. Ekkert frekar en meistari Hannes, meistari Þorsteinn, meistari Gyrðir. Hvað þá meistari Björk, meistari Vigdís eða meistari Steinunn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Getur verið að meistaratitillinn sé að verða neikvæður þegar listamenn eiga hlut að máli, eða er einhver vorkunnarkeimur af titlinum?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.1.2007 kl. 12:52

2 identicon

Það er rétt að ekki koma margar konur upp í hugann, sem alþýða hefur kennt við meistara.

Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að til þess að fá slíkan titil að kallast meistari þá þurfi menn að vera skrítnir og skondnir auk þess að vera færir og algjört skilyrði er að alþýðu manna þyki dálítið vænt um þá og skringilegheit þeirra.

Kristín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 11:33

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson stendur:"Í fyrra gerðist ég meistari til að njóta meiri respektar í kennidómi. Og ég tók mér nokkra lærisveina sem ég vildi gera að meiri mönnum. En veslings lærisveinar mínir eru flestir framlágir í siðferði og stirðir til náms. Sumir hata mig og atyrða. Sumir rógbera, ljúga og öfunda. Sumir braska og féfletta. Sumir eru uppblásnir af hroka og stærilæti og þykjast öllum meiri. Sumir vilja verða þingmenn og þykjast geta rétt við fjárhag þjóðarinnar. Aðrir dingla skoðanalausir. Sumir drekka og drýgja hór. En flestir gera þeir þó alt þetta."  Þetta held ég að sé upphafið að því að menn fóru að kalla Þórberg meistara Þórberg. Það var sem sagt í léttu gríni til að kvitta fyrir hans eigið grín með persónu sína. Það var ekki í rauninni verið að sæma Þórbergi þessum titli fyrir afburða ritsnilld sína. Menn voru bara að leika sér. Síðar festist þetta líka við Kjarval af einhverjum ástæðum, kannski hefur hann sagt eitthvað sniðugt og menn gengið á lagið. Svona held ég að þetta hafi byrjað og ekki farið að vefja verulega upp á sig fyrr en á okkar tímum og þessi titill, sem á sér bara húmoískan uppruna og ekki dýpri merkingu, er nú orðin hvorki fyndinn né marktækur.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.2.2007 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband