Pétursþing

Ég sat Pétursþing Gunnarssonar úti í Odda á uppstigningardag og varð uppnuminn. Fyrirlesararnir voru allir góðir, hver um sig velti upp nýjum flötum á ferli og höfundarverki Péturs af ást og hrifningu. Á þessu þingi skapaðist strax ákaflega sterkur og samhentur þingmeirihluti. Meðan leikar stóðu sem hæst bárust svo fregnir inn á fundinn utan úr bæ um að tólf ára ríkisstjórnarsamstarfi hefði verið slitið.

Þingið náði hápunkti sínum í máli þriggja síðustu ræðumanna: Halldór Guðmundsson gerðist sætavísa á fremsta bekk íslenskra skálda. Hann dró upp vasaljósið og vísaði Pétri fumlaust til sætis. Ekki milli Laxness og Þórbergs eins og Andri Haraldsson lét sig dreyma um heldur undir Þórbergi. Takið vel eftir að Þórbergur situr ekki ofan á Pétri, heldur Pétur undir honum. Af slíku samsæti er mikils að vænta.

Sigurður Pálsson kom síðan og lagðist í bernskuminningar þeirra skáldbræðra frá París 68-69. Hann víkkaði og dýpkaði enn myndina af Pétri með því meðal annars að upplýsa grandalausan þingheim um skapofsa hans og ofbeldishneigð.

Loks sté Pétur sjálfur í pontu og sannaði eftirminnilega að hann er meistari meistaranna í að einfalda flókna hluti án þess að banalísera þá. Jafnframt helsti sérfræðingur okkar í því að flækja ekki einfalda hluti, sem ekki er síður mikilvægt.


Þjóðkirkjurækni

Ansi á ég bágt með að skilja hvaða endemis vesin þetta er alltaf með þjóðkirkjuna og samkynhneigða. Erfiðast á ég með að átta mig á því af hverju samkynhneigðir Íslendingar eru svona miklu trúhneigðari og kirkjuræknari en við hin. Jafnframt sýnist mér að samkyntrúhneigðir séu líka miklu fleiri hér en annarsstaðar ef marka má þungann í umræðunni. Hvers vegna skyldi samþætting þessara tveggja hneigða vera svo algeng hérlendis? Er þetta kannski snar þáttur í Íslendingseðlinu? Þetta gæti verið rannsóknarefni fyrir einhvern metnaðarfullan Íslendingseðlisfræðing.

Við sem hneigjumst ekki til trúar sjáum ekki nauðsyn þess að kirkjan eigi yfirleitt að koma að hjúskaparsáttmálum. Veraldleg yfirvöld geta annast slíka gjörninga af stakri prýði og þeir ættu alfarið að vera á þeirra könnu fyrst kirkjunnar mönnum þykir þetta allt svona vandmeðfarið. Þar með yrði sá kaleikur frá kirkjunni tekinn og þar gæti fólk farið að ræða eitthvað sem því finnst skemmtilegra. Jafnframt hyrfi öll mismunun: Það giftir sig ósköp einfaldlega enginn hjá presti eða í kirkju og sú tilhögun gildir jafnt um alla, hvert svo sem þeir hneigjast.

Að auki spyr ég: Hefur enginn tölfræðingur kannað og borið saman endingu borgaralegra hjónabanda og heilagra? Fróðlegt væri að fá að vita með vissu hvort tölur um slíkt liggja fyrir. Mér kæmi ekki á óvart þó endingin reynist æ minni eftir því sem utanverkið, tilstandið og heilagleikinn er meiri. En kannski hef ég rangt fyrir mér í því.

Sjálfur hef ég verið í borgaralegu hjónabandi með sömu gömlu góðu konunni í hálfan fjórða tug ára. Við höfum aldrei saknað þess neitt sérstaklega að guð skyldi ekki til kvaddur þegar okkar hjónaspil hófst. Það kom aldrei til greina. Jafnvel held ég að ef kirkjan hefði af einhverjum orsökum viljað meina okkur að eigast hefði okkur verið alveg sama og jafnvel þótt það dálítið sniðugt. Fógetinn dugði líka fullvel.

Og þar kom reyndar um síðir að við hrósuðum happi að hafa ekki blandað kirkjunni í málið því líkast til hefði hjónaband okkar þar með verið ógilt. Við komumst nefnilega að því að íslenska þjóðkirkjan tekur oft sáralítið mark á eigin athöfnum. Hér kemur sagan af því:

Við hjónin erum hvort tveggja skírð og fermd á vegum þjóðkirkjunnar og teljum að það hafi aldrei skaðað okkur neitt. Þess vegna fannst okkur eðlilegt að láta skíra alla syni okkar fimm jafnóðum. Þeir hafa síðan sjálfir mátt ráða því hvort þeir vildu staðfesta skírnarsáttmálann með fermingu þegar þar að kæmi.

Sumarið 1991 var þar komið sögu að fjóra drengi höfðum við látið skíra og þrír höfðu þegar fermst. Sá fimmti og yngsti var svo skírður þá um sumarið. Við fengum góðan prest til að koma heim til okkar, athöfnin var hátíðleg og falleg og allir glaðir. Að henni lokinni fylltum við út eyðublað þar sem meðal annars var spurt um trúfélagsaðild foreldranna og að sjálfsögðu sögðumst við tilheyra þjóðkirkjunni, annaðhvort væri nú, við höfðum bæði verið tekin inn í þann söfnuð, ég ómálga en konan mín málga. Bæði höfðum við síðan látið ferma okkur í fyllingu tímans.

Nokkrum vikum eftir þessa skírn er hins vegar hringt í okkur frá Hagstofunni og spurt með nokkurri hneykslan hvers vegna konan mín segðist vera í þjóðkirkjunni því hún sé það reyndar alls ekki. Þetta var sagt skipta meginmáli, því trúfélagsaðild barna ráðist þar á bæ af trúfélagsaðild móður og engu öðru.

Okkur þóttu þetta í meira lagi óvænt og einkennileg tíðindi. Og eftir nokkra rannsókn kom eftirfarandi í ljós: Móðir konu minnar hefur aldrei í þjóðkirkjunni verið, eða nokkru öðru trúfélagi. Þetta leiddi síðan til þess skv. verklagi Hagstofunnar að ekkert barna hennar taldist til þjóðkirkjunnar þó öll væru þau skírð og fermd. Og áfram hélt þetta að erfast í kvenlegg samkvæmt sömu reglu: Öll dætrabörn tengdamóður minnar töldust trúfélagslaus en sonabörnin sluppu hinsvegar inn af því mágar mínir höfðu verið nógu klókir til að eignast þau með þjóðkirkjukonum. Jafnframt kom í ljós að óskírð og ófermd börn töldust hiklaust til þjóðkirkjunnar ef mæður þeirra gerðu það. Við það virtist kirkjan ekki hafa neitt að athuga. Þar með sátum við uppi með það í okkar fjölskyldu að ég var sá eini sem tilheyrði þjóðkirkjunni. Konan og drengirnir voru aftur á móti utangarðs.

Ég tók mig nú til og skrifaði biskupi, herra Ólafi Skúlasyni, bréf og spurði hvernig í ósköpunum þetta mætti vera. Hvernig stæði á því að kirkjan léti þetta líðast? Tæki hún ekkert mark á sínum eigin athöfnum og sakramentum? Jafnframt spurði ég hvort það hlyti ekki að teljast skýlaust brot á jafnréttislögum að trúfélagsaðild föðurins skipti í þessu tilliti engu máli. Biskup svaraði mér vinsamlega í miklum mæðutón. Eins og nærri mætti nú geta hefði þessi tilhögun lengi legið þungt á kirkjunnar mönnum en engu fengist um haggað. Fyrir okkur hjónin væri ekkert til ráða annað en að fara niður á Hagstofu og fylla út eyðublað sem héti tilkynning um breytingu á trúfélagi. Ég lét mér ekki duga þetta svar en skrifaði annað bréf og spurði sem svo: Hvernig á ég að geta fyllt út slíkt eyðublað án þess að fá að vita ÚR hvað trúfélagi fólkið er að ganga? Fyrst söfnuðurinn sem þau voru tekinn inn í og staðfestu síðan vist sína í er ekki þjóðkirkjan, hver er hann þá? Við þessu fékkst ekkert svar.

Eftir þetta gerðist ekkert lengi vel. Kirkjunnar menn höfðu ekki áhuga á þessu og það hvarflaði ekki að okkur að fylla út hið snautlega eyðublað. Okkur fannst þetta hjákátlegt, en svo sem ekkert stórmál. Ef guð væri til hlyti hann að vera hafinn yfir slíkt skrifræðisrugl og væri áreiðanlega sama hver væri í hvaða söfnuði eða ekki. En svo var það skömmu eftir að sr. Hjálmar Jónsson varð dómkirkjuprestur að ég hitti hann í hléi á kvikmyndasýningu í Háskólabíói. Ég tók í spaðann á honum og óskaði honum til hamingju með nýja starfið, kvaðst vera sóknarbarn hans, en mér þætti hinsvegar leitt að þurfa að segja honum að þjóðkirkjan hans hefði hafnað konu minni og sonum þó hún virtist af einhverjum ástæðum vilja hafa mig innanborðs. Hjálmar gekk svo snarlega í málið að mér er stórlega til efs að hann hafi horft á myndina eftir hlé. Hann skrifaði Hagstofunni í krafti síns embættis og sagði að sér væri kunnugt um að viðkomandi sóknarbörn teldust öll til þjóðkirkjunnar, enda öll skírð og að auki fermd þau sem aldur hefðu til.

Þar með komust týndu sauðirnir heim. Eða það held ég. Við höfum enn ekki haft fyrir því að athuga það hjá Hagstofunni. Einnig skilst mér að skírnareyðublaðinu hafi í framhaldi af þessu verið breytt þannig að nú er trúfélagsaðild barns tilgreind þar og barnið skráð hjá Hagstofunni samkvæmt því, alveg burtséð frá því hvaða söfnuði móðirin tilheyrir.

Ekki veit ég hvort enn tíðkast að óskírð og ófermd börn séu skráð í þjóðkirkjuna ef móðirin er þar, en hitt er ég alveg viss um í ljósi okkar reynslu að fjöldi fólks sem heldur sig vera í þjóðkirkjunni (skírt og fermt) er það ekki. Eins er viðbúið að margir sem halda sig skráða utan kirkjunnar (óskírðir og ófermdir) séu enn taldir til hennar.


Tilhlökkun

Hér um árið komust femínistar að þeirri niðurstöðu að algóð(ur) Guð væri kona. Vinur minn Sigurður Árnason læknir benti þeim þá hæversklega á hinn augljósa skort á háttvísi sem felst í því að vilja bara hirða bestu bitana. Það gengur ekki, sagði hann, að ætla sér að hrifsa til sín Guð en skilja Djöfulinn eftir. Hann skal því fylgja með í þessum kynskiptum. Djöfull hentar ágætlega sem kvenkynsorð, beygist eins og ull.

Af þessu hlaust eftirfarandi limra:

Eftir lokaspöl lífsbrautarinnar
loks nýt ég kvenhylli minnar:
Á himnum í stuði
hjá henni Guði
eða á djúpslóðum Djöfullarinnar.


Föðurarfur

Vegna nýlegra frétta um að Keith Richards hafi tekið ösku föður síns í nefið. Eitthvað örlítið búinn að styrkja hana fyrst að sögn:

Margt gott er Keith Richards gefið
nú getur hann fælt úr sér kvefið:
Hann fékk sér hreint kók
og við föður sinn jók
og notar svo blönduna í nefið.


Þú stóðst á tindi Teide hám

Á þessu méli í bloggferli mínum er víst ekki úr vegi að rifja upp kveðlinga sem ég birti eitt sinn meðan ég var laumubloggari á theld.stuff.is, sennilega þá þegar farinn að gera mér grein fyrir að ég yrði seint svokallaður ofurbloggari:

Eiginlega ekki vel
ætlar mér að lukkast blogg
á mér þó ég ýfi stél
eða jafnvel brýni gogg.

Við stóru orðin stend ég síst
stefni beint í glötun
héðan af þá verð ég víst
varla kjaftajötunn.

Annars kom það sér vel að vera ekki með mikinn kjaftagang þegar ég gekk á eldfjallið Teide (3718 m.) á Tenerife á páskadag ásamt vöskum tólf manna hópi. Tindurinn kallast hæsta fjall á Spáni en meira réttnefni væri þó líklega hæsta fjall Spánverja. Þetta fastlandshæðarmet mitt hafði ég hugsað að setja mér til andríkis en í staðinn varð ég andstuttur og ekki í kjaftastuði meðan á því stóð. Allt gekk þó frábærlega vel. Það var magnað að sitja þarna uppi í fjúki og frosti og brennisteinsfnyk og horfa of heima alla. Upprisan var erfið en sýnu meira púl varð þó niðurgangan. Spölurinn hafði af einhverjum ástæðum lengst óheyrilega frá því um morguninn að lagt var upp í myrkri. Það er alveg á skjön við reynslu mína hingað til sem segir að bakaleiðin sé ævinlega styttri. Allt hafðist þó að lokum og nokkrum klukkustundum síðar vorum við komin aftur alla leið niður á Ameríkuströndina. Það var skrýtin öfgatilfinning að vakna svo á mánudagsmorguninn eftir 14 klukkustunda öngvit og haltra beint niður í heitan sandinn.


Heimsmeistarakeppnin í brús í Svarfaðardal

Heimsmeistarakeppnin í brús fór fram að Rimum í Svarfaðardal í gærkvöldi. Ég tók þátt í þessari keppni eins og mörg undangengin ár. Spilafélagi minn að þessu sinni var dr. Árni Hjartarson jarðfræðingur, frændi minn frá Tjörn.

Við tókum daginn snemma og hófum æfingar klukkan 16 ásamt Hjörleifi og Írisi suður í Laugasteini, næsta bæ við Gullbringu. (Hvort tveggja hjáleigur frá Tjörn).

Spilið hófst kl 20, spilaðir voru 9 kambar, stutt hlé eftir 5. kamb.

Keppendur voru um 70 og úrslit sem hér segir: Heimsmeistarar urðu Eiríkur og Sæmundur með 46 stig, í öðru sæti Kristján og Kristjana á Tjörn með 45 stig, í þriðja sæti Þór og Halli einhversstaðar litlu neðar. Kamburinn helst því í dalnum, lsg.

Við Árni fengum 39 stig sem verður að teljast mjög viðunandi. Við unnum 4 kamba af 9, fengum aldrei á okkur klórningu en klóruðum einu sinni með fullum árangri. Fengum 6 stig fyrir einn kambinn en þá hafði okkur tekist að voga rúntinn tvisvar, að ódrepnu. Vorum ekki janaðir nema einu sinni, en tókst því miður ekki sjálfum að jana neina mótherja.

Eftir þessa keppni finnst okkur enn sem fyrr gagnrýni vert að drepin vogun skuli gefa fleiri stig á kambinn en staðin. Þeas, staðin vogun rúntinn gefur 2 stig en andstæðingurinn fær 3 fyrir að drepa hana. Staðin vogun undir næsta mann gefur aðeins 1 stig á kambinn en andstæðingar fá 2 fyrir að drepa hana. Þetta hvetur til varfærni og öryggisspilamennsku. Miðjumoðs. Meðalmennsku. Eins og reglurnar eru núna er því ekki hægt að segja vogun vinnur / vogun tapar, heldur vogun rétt aðeins vinnur / vogun skít-tapar.

Við frændur hyggjumst taka málið upp á næsta aðalfundi Brússambandsins.

Við kölluðum liðið okkar "Janus". Næsta ár á það að heita "Janus Kamban"

Á heimasíðu Dalvíkurbyggðar má lesa sér til um leyndardóma brússins.


Glámskyggni

Jæja. Glámskyggnir reyndust Urðamenn. Nema skýringin sé sú að Carl Jóhan hafi verið efstur í gær en misst af hnossinu í morgun. Söru Stridsberg skal innilega óskað til hamingju með Norðurlandaverðlaunin. Hún hefur skrifað áhugaverða bók um kerlinguna sem reyndi að myrða Andy Warhol, varð fræg fyrir þá tilraun í meira en korter og verður nú jafnvel enn frægari. Kannski í þrjú korter.

Spásögn á elleftu stundu

Nú styttist í að tilkynnt verði hvaða höfundur hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlanda í ár. Mér skilst það verði klukkan 11.30 í dag. Íslendingarnir tveir, Hallgrímur og Jón Kalman eru sagðir eiga góða möguleika. Jafnframt mun margra annarra góðra kosta völ.

Ég skrapp í gær á málþing í Þjóðarbókhlöðunni þar sem dómnefndarmenn töluðu um bókmenntaástandið, hver í sínu landi. Við sátum þarna saman Urðafrændurnir, við Einar Már Guðmundsson og hlýddum á erindin sem satt að segja voru ansi misjöfn að gæðum. Eitt vorum við alveg sammála um frændurnir: Dómnefndarmenn voru þannig í framan að við teljum fullvíst að færeyski höfundurinn Carl Jóhan Jensen og bók hans Ósøgur um djevulskap verði fyrir valinu.

Látum nú koma í ljós hve glöggskyggnir við frændur erum.


Óumræður

Er nokkurt vit í umræðum
- ég á við fræðilega -
þar sem rætt er aðeins um
hið óumræðilega?

Jónas sækir á

Jónasarárið mikla sækir á: Í fyrradag fór ég og hlýddi á tvo fróðlega fyrirlestra um Jónas Hallgrímsson í Kennaraháskólanum. Tók þá fram yfir forvitnilega dagskrá um Auden 100 ára sem fór fram í Odda á sama tíma.

Í KHÍ fjallaði Stefán Bergmann um náttúrufræðinginn Jónas. Hann kom inn á bakgrunn hans og áhrifavalda á því sviði, síðan áhrif þessara fræða á Jónas og kveðskap hans og alla eftirkomendur, lærða sem leika.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson fjallaði síðan ítarlega um stuðlasetningu Jónasar. Hann ræddi öll helstu álitamálin og hefur kannað þau sérstaklega hjá Jónasi. Svo sem s-stuðlun (hvort s+sérhljóð er látið stuðla við sl, sm og sn), gnýstuðla (sk, sp, st) og í því samhengi einkum hvort sl, sm og sn gnýstuðli. Þá fór hann vel yfir sníkjuhljóðastuðlun tengda sl, sm og sn (td hvort d-kennt sníkjuhljóð á undan n í sn og sl teljist duga til stuðlunar við st).

Fleira var til athugunar. Meðal annars kom í ljós að Jónas leyfði sér nær aldrei þá tækifærisstefnu sem viljað hefur loða við norðlensk skáld að láta hv stundum stuðla við h og stundum við k.

Annars er s-ið sérsvið Ragnars Inga. Hann birti ritgerð sína um ljóðstafinn s í íslenskum kveðskap í því ágæta óðfræðitímariti Són, 3. hefti 2005. Þar eru afgreidd með tæmandi hætti ýmis vandamál sem bragfræðingar, skáld og hagyrðingar hafa löngum glímt við. Mjög gagnleg og spennandi lesning.

Eitt sinn orti ég níðvísu um Ragnar Inga, samkvæmt pöntun frá honum sjálfum. Hún er svona:

Góðs er af honum ekki neins von
einskis nema háðs og flíms.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson
ólæknandi fíkill ríms.

Ragnar Ingi hefur með rannsóknum sínum afsannað rækilega þá svívirðilegu aðdróttun sem felst í fyrriparti vísunnar. Rímfíkn hans er hinsvegar áfram söm við sig og satt að segja vona ég að honum batni hún aldrei.

Miðvikudaginn 28. febrúar kl. 16 verða svo enn tveir áhugaverðir fyrirlestrar um Jónas í KHÍ. Þórður Helgason ræðir uppruna og framhaldslíf bragarháttarins á Hvað er svo glatt. Guðmundur Sæmundsson talar síðan um Megas Hallgrímsson og fjallar þar um tengsl tveggja öndvegisskálda.

Það hafa reyndar svo mörg skáld ort ljóð um Jónas Hallgrímsson að þau geta eiginlega kallast sérstök bókmenntagrein. Í fljótu bragði man ég eftir þessum skáldum: Grímur Thomsen, Hannes Hafstein, Matthías Jochumsson, Þorsteinn Erlingsson, Jóhann Sigurjónsson, Davíð Stefánsson, Steinn Steinarr, Snorri Hjartarson, Megas, Hallgrímur Helgason.

Sjálfsagt eru skáldin miklu fleiri. Nú síðast Gerður Kristný sem á fínt ljóð um Jónas í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar.

Væri nokkuð galið að safna þessu öllu saman í bók? Og láta túlkanir íslenskra myndlistarmanna á skáldinu fylgja með.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband