Kaupstaðarferðin

Ég greip í gær ofan í Málsvörn og minningar Matthíasar Johannessen (Vaka-Helgafell 2004) og lenti á þætti sem hann kallar Kaupstaðarferð (bls. 305). Þar víkur Matthías að frægu samtali sínu við Stein Steinarr sem birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 1957. Oft hefur verið vitnað til lokaorða Steins í þessu viðtali:

Ég er uppalinn í sveit, eins og þú kannski veist, og þegar ég var lítill drengur, var ég stundum sendur í kaupstaðinn, eins og það var kallað. Í raun og veru finnst mér ég enn vera í einhverri slíkri kaupstaðarferð, langri og yfirnáttúrlegri kaupstaðarferð, en ég hef gleymt því hver sendi mig, og einnig því, hvað ég átti að kaupa.

Matthías bendir á að sama ár er haft eftir Garðari Hólm í Brekkukotsannál:

Hún móðir mín sendi mig einu sinni út að kaupa pipar og ég er ekki kominn heim enn.

Matthías leggur skemmtilega út af þessum orðum. Hann spyr hvað það hafi verið sem sendi þessa menn, Garðar og Stein, í kaupstað. Niðurstaðan, sem hann rökstyður vel, er að það hafi verið arfleifðin, það sem gerði okkur að þjóð. Þar sé sem sagt að finna hinn raunverulega tilgang ferðarinnar. Án arfleifðarinnar séum við erindislaus.

Líkinguna um barnið í kaupstaðarferðinni er annars einnig að finna í frægu ljóði eftir sænska skáldið Nils Ferlin (1898-1961):

DU HAR TAPPAT DITT ORD
Du har tappat ditt ord och din papperslapp,
du barfotabarn i livet.
Så sitter du åter på handlarns trapp
och gråter så övergivet.

Vad var det för ord - var det långt eller kort,
var det väl eller illa skrivet?
Tänk efter nu - förrn vi föser dig bort,
du barfotabarn i livet.

Magnús Ágeirsson þýddi ljóð Ferlins, kallaði það MANNSBARN og birti í Meðan sprengjurnar falla (1944):

Þú misstir á leiðinni miðann þinn,
þú mannsbarn, sem einhver sendi.
Á kaupmannsins tröppum með tárvota kinn
þú titrar með skilding í hendi.

Var hann stór eða lítill, lappi sá,
- með ljótri eða fallegri hendi?
Vertu fljótur að muna - eða mjakastu frá,
þú mannsbarn, sem einhver sendi!


Lokadómur

Hver á að dæma dómarann?
Dagsins orðagjálfur?
Nei, gleymd'ekki hver loks gómar'ann:
Hann gerir það reyndar sjálfur.

Listaverk sem hvarf

Fyrir nokkrum árum var ráðist í miklar endurbætur umhverfis Alþingishúsið. Gatan og stéttin voru tekin í gegn og löguð og flikkað mjög upp á Austurvöll í leiðinni. Til að kóróna herlegheitin var svo loks komið fyrir fjórum risavöxnum boltum úr steini og þeir njörvaðir tryggilega við stéttina framan við húsið. Ég leit alltaf svo á (án þess nokkur beinlínis segði mér það) að þessi innsetning, þetta umhverfislistaverk, væri hugsað sem einskonar minnisvarði um fjórflokkakerfið. Skilaboðin voru augljós: Hér eru þessir fjórir boltar og hér verða þeir um aldur og ævi. Ekkert fær þeim haggað. Vei þeim sem reynir að sparka einum þeirra burt, það gerist ekkert annað en það að boltamaðurinn fótbrotnar.

En svo allt í einu einn góðan veðurdag voru þeir horfnir. Næstum jafnsnögglega og SÍS eða Sovétríkin. Ég sá aldrei neina umfjöllun um þetta brotthvarf og efa stórlega að þeim hafi verið stolið

Ef hvarfið dularfulla hefur verið liður í innsetningunni, táknar það þá að einhverntíma geti komið að því, að mati listamannsins, að hið fjórhjóladrifna kerfi riðlist?


Það er nú það

Ekki veit ég hvað er nú hvað
né hver vor örlög semur.
En hitt er víst að það er nú það
það sem er og kemur.

Þorskvinnsla

Jón Bragi er brautryðjandi
það er beinlínis magnaður fjandi.
Allra farsótta kúr
hann framleiðir úr
þorskum á þurru landi.

mbl.is Íslenskt lyf gegn fuglaflensu og kvefi væntanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndi

Hvert er Frjálslyndra frjálslyndi?
Fæst það gegn borgun?
Ef til vill haft sem hálsbindi
hálfrautt í dag, bláleitt á morgun?

Meistarar

Ég hef stundum verið að velta fyrir mér hinum óformlega meistaratitli sem festist við suma listamenn. Hvað skyldi þurfa til? Greinilega þurfa menn að skara fram úr öðrum. Þó virðist það ekki alveg nægjanlegt eða einhlítt.

Samkvæmt orðsifjabók Ásgeirs Blöndals er orðið ættað úr latínu, dregið af magis sem þýðir meir, sbr magnus (mikill). Ásgeir Blöndal skýrir merkinguna þannig: Kennari, lærdómsmaður; leiðtogi; maður með tiltekið háskólapróf; iðnaðarmaður með ákveðin réttindi; yfirmaður, húsbóndi; afburðamaður í einhverri grein eða íþrótt.

Skoðum hverjir hafa helst borið þennan titil óformlega, hafa fengið hann af vörum þjóðarinnar sem einskonar gælunafn. Frá fyrri tíð man ég í fljótu bragði aðeins eftir tveimur mönnum: Þeir eru meistari Kjarval og meistari Þórbergur. Óumdeildir afburðamenn í sínum greinum en eitthvað annað hlýtur líka að koma til amk minnist ég þess ekki að hafa nokkurntíma heyrt talað um meistara Kiljan eða meistara Laxness. Aldrei hefur heldur heyrst meistari Davíð, meistari Tómas, meistari Steinn, meistari Páll Ísólfsson, meistari Jón Leifs - svo nokkrir séu nefndir - þrátt fyrir augljósa snilld og mikla aðdáun manna á verkum þeirra fyrr og síðar.

Afburðamannsskýringin hlýtur samt að eiga helst við hér. Trúlega er þó kennaramerkingin líka fyrir hendi. En svo sem sjá má af dæmunum er ekki sjálfgefið að allir hinir allra bestu hljóti titilinn, afburðunum virðist einnig þurfa að fylgja viss sérstaða eða sérlund. Sérlund af því tagi sem laðar að sér lærisveina og -meyjar. Nokkur innvígsla og safnaðarkennt andrúmsloft er greinilega til staðar.

Meðal núlifandi listamanna held ég að aðeins tveir beri þennan sjálfsprottna titil. Það eru þeir meistari Guðbergur og meistari Megas.

Einar Már og Sjón eru oft kenndir við verðlaun sem þeir hafa hlotið og kallaðir Norðurlandameistarar í bókmenntum en meistari Einar Már og meistari Sjón eru þeir samt ekki kallaðir. Ekkert frekar en meistari Hannes, meistari Þorsteinn, meistari Gyrðir. Hvað þá meistari Björk, meistari Vigdís eða meistari Steinunn.


Minnihlutaofbeldi

Það er beinlínis ömurlegt að horfa upp á skrípalæti minnihlutans á Alþingi vegna frumvarpsins um Ríkisútvarpið ohf þar sem málþófi er beitt enn eina ferðina til að reyna að drepa málinu á dreif, virðingu þingsins til stórskaða. Eitt er svo sem að bera ekki gæfu til að standa að lífsnauðsynlegum breytingum á rekstrarformi þessarar mikilvægu menningarstofnunar en annað er að láta sér sæma að beita ofbeldi til að koma í veg fyrir að meirihluti þingsins fái að ráða. Þó ekki væri öðru en því að gengið verði sem fyrst til atkvæða um málið eftir alla þá umfjöllun sem það hefur fengið. Það er í hæsta máta ólýðræðislegt.

Á undanförnum árum hefur borið nokkuð á sérkennilegri lýðræðisumræðu sem gengur út á það að því meiru sem hinn allra minnsti minnihluti fái að ráða, þeim mun meira sé lýðræðið þar með orðið. Og svo á hinn bóginn: Því stærri meirihluti sem er fyrir einhverju tilteknu máli, þeim mun minna lýðræði. Samkvæmt þessum kokkabókum hlýtur td. stofnun lýðveldisins 1944 að hafa verið hrikalega ólýðræðisleg. Þetta er kallað meirihlutaofbeldi og þykir skelfilega ljótt. Ég get svo sem alveg tekið undir það að allt ofbeldi er slæmt. Af tvennu illu kýs ég þó frekar meirihlutaofbeldi en minnihlutaofbeldi.

Rekstrarformi Ríkisútvarpsins VERÐUR að breyta. Það er meðal annars forsendan fyrir nýrri stórsókn í innlendri dagskrárgerð sem koma mun íslenskri menningu og tungu mjög til góða ef rétt verður á haldið. Ég skora á þing og menntamálaráðherra að gefast ekki upp fyrir ofbeldi og klisjugangi afturhaldsins og leiða þetta mikilvæga mál óhikað til lykta þó það kosti sólarhringstarnir í margar vikur.

Síendurtekið efni er gamla klisjan um meint yfirráð Sjálfstæðisflokksins yfir Ríkisútvarpinu og öllu sem þar heyrist og sést og fer fram. En í hverju felast þau yfirráð? Hvað er útvarp annað en fólkið sem starfar þar og við heyrum í dags daglega? Ég minnist spjallþáttar sem ég hlustaði á fyrir fáeinum misserum. Þar voru nokkrir eindregnir andstæðingar ríkisstjórnarinnar að venju samankomnir fyrir hádegi á laugardegi til að ræða landsins gagn og nauðsynjar en þó einkum ógagn og ónauðsynjar. Talið barst að Ríkisútvarpinu og einn kjaftajötnanna nefnir að nú sé svo komið að það þurfi flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum til að fá þar inni. Allir viðstaddir flissuðu samþykkjandi að þessum almæltu sannindum, þar hittirðu nú aldeilis naglann á höfuðið...

En ég, saklaus hlustandinn heima, sagði við sjálfan mig: Ja, ljótt er að heyra, en er þetta virkilega svona? Ég hlustaði og hlusta enn mikið á Rás eitt og fór að hugsa: Í hverjum heyrist í útvarpinu? Hverjir ERU Rás eitt? Á þeim tíma reyndust það eftir stutta minnisleit einkum vera eftirtaldir, allt saman frábærir, lifandi og áhugasamir útvarpsmenn: Ævar Kjartansson, Arthúr Björgvin Bollason, Jórunn Sigurðardóttir, Þröstur Haraldsson, Anna Kristín Jónsdóttir, Leifur Hauksson, Eiríkur Guðmundsson, Hjálmar Sveinsson, Jón Ásgeir Sigurðsson, Gunnar Gunnarsson, Friðrik Páll Jónsson, Steinunn Harðardóttir, Una Margrét Jónsdóttir...

Ég man að mér þóttu það óvænt og váleg tíðindi að allt þetta ágæta fólk skyldi vera gengið í Sjálfstæðisflokkinn.


Iceland spar

Fróðleg var úttekt Björns Þórs Vilhjálmssonar í Lesbókinni um helgina á nýjustu skáldsögu bandaríska hulduhöfundarins Tómasar Pynchons, Against the Day. Ekki síst fyrir þá sök að Ísland, nánar tiltekið Ísafjörður, er að hluta til sögusvið bókarinnar. Það finnst okkur alltaf svo gaman. Ísland er nefnt... segjum við og tökum andköf af hrifningu og ánægju. Ekki síst við Vestfirðingar að þessu sinni. Sem betur fer er enn talsvert grunnt á nesjamennskunni í okkur. Það yrði mjög leitt ef henni verður útrýmt. Þetta hlýtur að vera gríðarleg landkynning. Enginn hefur þó orðið var við Pynchon á vappi um bryggjur og götur á Ísafirði, en hví skyldi hann ekki hafa lagt leið sína þangað fyrst sjálfum Mick Jagger þótti taka því? Og Ísfirðingum er víst vorkunn þó þeir þekktu ekki manninn.

Einkennilegt var svo aftur á móti að sjá að hvorki Björn Þór né nokkur af ritstýrendum og yfirlesurum Lesbókarinnar virðast hafa hugmynd um að efnið dularfulla sem svo mjög ber á góma í sögunni, Iceland spar, litlaus tegund af kristölluðu kalsíti hefur hingað til verið betur þekkt hérlendis undir nafninu SILFURBERG.

Er almenn menntun nokkuð á undanhaldi í landinu, eða flokkast vitneskja af þessu tagi undir fánýtan fróðleik?

Leó Kristjánsson eðlisfræðingur hefur manna best kynnt sér silfurbergsvinnslu á Íslandi á öldum áður og rannsakað þýðingu hennar í vísindasögunni, svo sem auðveldlega má kynna sér á Netinu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband